Stefnumótunarfundur í náms- og starfsráðgjöf var haldinn föstudaginn 28. nóvember á Hótel Sögu.
Sigríður Hallgrímsdóttir bauð gesti velkomna fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Dr. Raimo Vuorinen framkvæmdarstjóri ELGPN fræddi gesti um áhrif náms- og starfsráðgjafar. Eftir innlegg Raimos var unnið á borðum undir stjórn borðstjóra þar sem ræddar voru sviðsmyndir framtíðar náms- og starfsráðgjafar á Íslandi, forgangsverkefni, samstarf aðila og fleira. Arnar Jónsson og Þröstur Freyr Gylfason hjá Capacent sáu um að leiða fundinn og munu, í samstarfi við starfshóp mennta- og menningarmálaráðuneytis, vinna úr niðurstöðum fundar. Um starfshópinn og stefnumótunarvinnu: Mennta- og menningarmálaráðuneytið skipaði starfshóp um stefnumótun í náms- og starfsráðgjöf í maí sl. Í starfshópnum sitja fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis, velferðarráðuneytis, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis og Félags náms- og starfsráðgjafa. Hlutverk starfshópsins er að gera tillögur um framtíðarsýn, stefnu og aðgerðir fyrir náms- og starfsráðgjöf á Íslandi í samstarfi við helstu hagsmunaaðila og einnig að gera tillögur um uppbyggingu stoðkerfis fyrir ævilanga náms- og starfsráðgjöf. Nánari upplýsingar veitir Guðrún Birna Kjartansdóttir ([email protected]) formaður starfshóps. |
Dr. Raimo Vuorinen er sérfræðingur í stefnumótun í náms- og starfsráðgjöf. Hann er framkvæmdastjóri evrópsks samstarfsnets um stefnumótun í náms- og starfsráðgjöf (elgpn.eu) sem Ísland hefur verið hluti af frá árinu 2008.
Raimo hefur komið reglulega til Íslands síðustu ár og stutt við stefnumótunarvinnu í náms- og starfsráðgjöf. Raimo starfar við háskólann í Jyväskylä en hann er einnig gestadósent við námsbraut í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands. Í haust kennir hann valnámskeið fyrir starfandi náms- og starfsráðgjafa sem og nema á 2. ári í MA námi í náms- og starfsráðgjöf. Námskeiðið kallast lykilþættir í stefnumótun náms- og starfsráðgjafar. Auk þess að vera sérfræðingur í stefnumótun hefur Raimo rannsakað notkun upplýsingatækni í náms- og starfsráðgjöf og birt greinar um það efni. Hægt er að lesa nýlega grein um notkun samfélagsmiðla í náms- og starfsráðgjöf hér. |